Janúarfundur Ættfræðifélagsins

Fimmtudaginn 26. janúar 2017 heldur Jón M Ívarsson sagnfræðingur fyrirlestur um Flóamannabók sem mun verða eitt yfirgripsmesta æviágripasafn á Íslandi. Þar verða ævilýsingar um 6000 bænda og húsfreyja í Flóanum allt frá 1703 til þessa dags, einnig lýsingar á 267 bújörðum og búsetustöðum í núverandi Flóahreppi, ásamt örnefnaskrám og eigendasögu.

Síðast en ekki síst verður fjallað um ættartengslin, en það er fróðlegt að sjá hvernig sumar fjölskyldur hafa breiðst út yfir Flóann og blandast á allra handa mögulegan máta. Á sumum bæjum hafa sömu fjölskyldurnar einnig búið öldum saman.

Fundurinn verður haldinn kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafnsins að Laugavegi 162, 3. hæð, Reykjavík. 
Kaffi og spjall
Allir velkomnir!

Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins

Hólmfríður sjókona
Fimmtudaginn 24. nóvember heldur Sigrún Sigurgestsdóttir fyrirlestur um langömmu sína Hólmfríði sjókonu og afkomendur hennar, en nýlega gáfu þau systkinin, Sigrún og Ásgeir, út bók um hana. Hólmfríður var hugumstór, einstæð móðir, bóndi og sjómaður í Rangárþingi á 19. öld. Hún réri tólf vetrarvertíðir frá Landeyjasandi og lést frá einkasyninum þegar hann var á barnsaldri. Hún var af alþýðufólki og saga hennar gefur innsýn í harðneskjuleg lífskjör og baráttuþrek íslenskrar alþýðu.

 

Fundurinn verður haldinn kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafnsins að Laugavegi 162, 3. hæð, Reykjavík. 
Kaffi og spjall
Allir velkomnir!

 

Októberfundur Ættfræðifélagsins

Októberfundur Ættfræðifélagsins

Fimmtudaginn 27. október kl.20.00 heldur Margrét Gunnarsdóttir sagnfræðingur erindi sem hún kallar Íslenskar ættir og evrópskt tengslanet Gríms Jónssonar Thorkelí. (1752–1829). Grímur hélt ungur að árum til náms í Kaupmannahöfn og bjó utanlands eftir það. Engu að síður var hann virkur þátttakandi í mótun íslensks samfélags á umbrotatímum. Hann var kallaður “Icelandic ambassador extraordinaire” er hann dvaldi á Bretlandseyjum á 9. áratugi 18. aldar. Eftir að hann sneri aftur til Kaupmannahafnar tók hann við embætti leyndarskjalavarðar og gegndi því til æviloka.

Hann var einnig félagi í bandarísku vísindaakademíunni.

Fundurinn verður haldinn í húsi Þjóðskjalasafnsins að Laugavegi 162, 3. hæð, Reykjavík.

Kaffi og spjall
Allir velkomnir!

Septemberfundur 2016

Fimmtudaginn 29. september kl 20:00 heldur Guðfinna Ragnarsdóttir, ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins, fyrirlestur sem hún kallar Úr ættanna kynlega blandi. Þar segir hún frá langömmu sinni Vigdísi Vigfúsdóttur, lausaleiksbörnum hennar og basli, systkinum hennar og afkomendum, og móður hennar Guðbjörgu sem kom undir í skugga draugsins Goggs, reið hrossum af Kengálukyni og pússaði silfurskálar Magnúsar Ketilssonar sýslumanns. Guðfinna segir einnig frá fóstrunni og maurakerlingunni Jórunni, sem átti tvö börn með sálmaskáldinu Jóni Þorlákssyni á Bægisá, en Jórunn var, segir sagan „langhálsuð og siginaxla með krepju í augum, munnófríð með geiflu..“, en hún arfleiddi Guðbjörgu að hálfri jörð.

Fundurinn verður haldinn í húsi Þjóðskjalasafnsins að Laugavegi 162, 3. hæð, Reykjavík.

Kaffi og spjall
Allir velkomnir!