Það var fimmtudaginn 22. febrúar 1945 sem Ættfræðifélagið steig sín fyrstu skref. Veðrið var fallegt, hægur vindur og snjóföl á jörðu. Það kvöld, kl. 20:30 var haldinn stofnfundur félagsins.

Þótt enn sé hávetur er sólin er farin að hækka á lofti. Stóra hvíta húsið austan í Arnarhólnum trónir stolt og virðulegt, meðvitað um þann þjóðarauð sem það hefur að geyma. Í lestrarsal Þjóðskjalasafnsins sitja nokkrir menn, sumir ungir, aðrir nokkuð við aldur. Þeir hafa setið hér oft áður, löngum stundum. Einnig þeir eru meðvitaðir um þann auð sem í bókum hússins felst, en athygli þeirra beinist fyrst og fremst að ættfræðinni og þýðingu hennar fyrir samheldni og tengsl, menningararf og alhliða fróðleik.

Einum þeirra hefur meira að segja verið sýndur sá trúnaður að hafa lykil að safninu. Oft sést loga þar ljós í glugga langt fram á kvöld. Þá situr ættfræðingurinn og eldhuginn Pétur Zophaníasson og vinnur úr heimildum, les, flettir og ber saman og rekur ættir langt aftan úr öldum.

Oft höfðu þeir setið þar saman í Lestrarsalnum vinirnir Pétur Zophaníasson og Indriði Indriðason.

Við þurfum að stofna samtök ættfræðiáhugafólks, segir Indriði Indriðason, sem ver öllum frístundum sínum á Safninu. Já, það hefur mig alltaf dreymt um, segir Pétur. Báðir finna þeir þörfina fyrir sameiginlegan vettvang áhugamanna um ættfræði.

Svo líða árin við brauðstrit, grúsk og fræðistörf og draumurinn bíður. En allt hefur sinn tíma og nú er kominn 22. febrúar 1945. Þeir sitja hér báðir Indriði og Pétur og um fjörutíu aðrir og ákveða að nú skuli stofnað ættfræðifélag.

Þar eru nöfn sem eiga eftir að koma við sögu ættfræðinnar á komandi árum eins og Guðni Jónsson, Einar Bjarnason, dr. Jón Jóhannesson, Steinn Dofri og Ari Gíslason. Auk þeirra má nefna Þorvald Kolbeins, Braga Sveinsson, Guðmund Illugason Aðalstein Halldórssson og Kristinn Björnsson.

-Það var fyrst og fremst fyrir áeggjan Péturs að félagið var stofnað, segir Indriði Indriðason, ættfræðingur og rithöfundur, í viðtali á 50 ára afmæli Ættfræðifélagsins 1995. „Pétur hafði gífurlega útgeislun og sjarma og hann var öllum mönnum betur og meira virtur sem ættfræðingur. Hann var líka mikill félagshyggjumaður og hafði margvíslegar áætlanir og ráðagerðir um starfsemi og hlutverk félagsins.

Það var því sjálfsagt að kjósa Pétur Zophaníasson fyrsta formann Ættfræðifélagsins. Til hans báru menn ómælt traust eins og sést á því að hann, sá eini af almennum gestum safnsins, hafði lykil að Þjóðskjalasafni Íslands!

Þeir vinirnir Indriði og Pétur ræddu oft um hlutverk félagsins og voru sammála um að eitt af meginstefnumálunum væri að gefa út blað þar sem hægt væri að koma á framfæri ýmisskonar fróðleik og fyrirspurnum en upplýsingar lágu á þessum tíma sjaldnast á lausu og mikið þurfti fyrir öllu að hafa.

Sem dæmi um aðstöðuleysið á þessum tíma segir Indriði frá því að það hafi tekið hann milli 20 og 30 ár að safna upplýsingum í verk sitt Ættir Þingeyinga með því að sitja á safninu stundarkorn eftir vinnu - en þá var safninu lokað kl. 17, - og eyða þar flestum laugardögum og sumarfríum.

Starfsemi Ættfræðifélagsins fór hægt af stað. Fyrsta árið voru aðeins haldnir einn eða tveir fundir þar sem Pétur Zophaníasson og Guðni Jónsson héldu fyrirlestra um ættfræði.

Því miður naut Péturs ekki lengi við en hann andaðist 21. febrúar 1947, réttu ári eftir stofnun félagsins.

Þegar Pétur lést var Guðni Jónsson kosinn formaður og sama ár var ráðist í útgáfu manntalsins 1816. Útgáfa manntalsins var mjög tímafrek og annað félagsstarf sat þá á hakanum og lagðist að lokum út af.

Síðan svaf Ættfræðifélagið Þyrnirósusvefni í rúman áratug eða fram til ársins 1972 því enginn kunni við að taka félagið úr höndum slíks ágætismanns sem Guðni Jónsson var.

En Guðni var sannarlega ekki aðgerðalaus á þessum árum því á átta árum lét hann frá sér sex bækur- auk manntalsins 1816- samtals þrjú þúsund og sex hundruð blaðsíður!

Annað stórveldi á sviði ættfræðinnar var Einar Bjarnason lögfræðingur, en hann var gerður að prófessor í ættfræði, sá eini hingað til. Hann var sá mesti ættfræðingur sem við höfum átt, segir Indriði í afmælisviðtalinu 1995. Þótt við legðum saman tvo eða þrjá, þá næðu þeir ekki upp til hans.

Þeim safnfélögunum Indriða Indriðasyni, Einari Bjarnasyni og Jóhanni Gunnari Ólafssyni varð tíðrætt um örlög félagsins og það varð úr að þeir boðuðu til rabbfundar með Pétri Haraldssyni og Bjarna Vilhjálmssyni þjóðskjalaverði og ákváðu þeir að endurreisa félagið. Það var svo 18. febrúar 1972 sem Ættfræðifélagið var endurvakið.

Indriði Indriðason var kosinn formaður og fyrsta verkefni félagsins var að ljúka við útgáfu manntalsins 1816. Síðan hefur Ættfræðifélagið starfað óslitið, haldið félagsfundi mánaðarlega yfir vetrarmánuðina, og gefið út Fréttabréf. Auk þess hefur félagið haft svo kallað Opið hús vikulega yfir vetrarmánuðina í húsnæði félagsins hverju sinni, þar sem menn koma saman og spjalla og bera saman bækur sínar og veita hver öðrum upplýsingar og ráð. Í mörg ár stóð félagið fyrir sumarferðum út á land. Þær voru mjög vinsælar enda hafði félagið ávallt á að skipa kunnugum og fróðum heimamönnum hvert sem haldið var. Þessar sumarferðir lögðust því miður af vegna áhugaleysis fyrir nokkrum árum.

Útgáfustarfsemi félagsins hefur verið mikil og ómetanleg öllum þeim sem ættfræði unna. Auk manntalsins 1818 hefur Ættfræðifélagið gefið út manntalið 1801 og 1845 og af manntalinu 1910 hafa hingað til komið út sex bindi.

Félagið hefur haft yfir að ráða húsnæði undanfarna tvo áratugi, nú í Ármúla 19 á 2. hæð. Þar eru haldnir stjórnarfundir og Opið hús og þar er einnig bókalager félagsins og bókasafnið, sem stendur öllum félögum til boða þegar opið er. Félagsfundirnir voru mjög vel sóttir framan af og ótal fyrirlesarar hafa flutt þar erindi sem síðan hafa birst í Fréttabréfinu. Margir félagsmenn í Ættfræðifélaginu eru búsettir úti á landi og eiga þess ekki kost að sækja fundina en geta þá lesið erindin í Fréttabréfinu.

Eftir að Íslendingabók var opnuð almenningi minnkaði áhugi manna á að taka þátt í starfsemi Ættfræðifélagsins og virðist eins og menn láti sér nú orðið nægja að rekja saman ættir sínar þar. Annar ættarfróðleikur virðist skipta minna máli. Við það hefur félögum í Ættfræðifélaginu fækkað og einnig fundargestum á almennum félagsfundum. Þar með hefur efnahagur félagsins versnað til muna og útgáfa manntalanna dregist saman þar sem erfitt hefur reynst að selja manntölin. Fréttabréfið hefur þó haldið velli og kemur út fjórum sinnum á ári. Netnotkun gerir þeim sem eru tölvuvæddir auðveldara um aðgengi að gögnum og þar með sækir fólk minna í að nálgast fróðleik hjá þeim aragrúa félagsmanna sem búa yfir þekkingu á flestum sviðum ættfræðinnar, sögum og sögnum sem oft er hvergi er að finna nema hjá þeim. Framtíð Ættfræðifélagsins hangir nú á bláþræði þar sem meðalaldur félagsmanna fer stöðugt hækkandi og félagsgjöldin duga ekki lengur til þess að halda uppi eðlilegri og lifandi starfsemi.

Allir formenn Ættfræðifélagsins

 1. Pétur Zophaníasson 1945-1946
 2. Guðni Jónsson 1947-1972
 3. Indriði Indriðason 1972-
 4. Ólafur Þ. Kristjánsson
 5. Jón Gíslason
 6. Jón Valur Jensson 1990-1991
 7. Hólmfríður Gísladóttir 1991-1999
 8. Halldór Halldórsson 1999-2000
 9. Ólafur Óskarsson 2000-2004
 10. Eiríkur Þ. Einarsson 2004-2008
 11. Anna Guðrún Hafsteinsdóttir 2008-2012
 12. Anna K. Kristjánsdóttir 2012